Stutt kynning á sjálfri mér vegna prófkjörsins

 

Ég er fædd í Stykkishólmi 1949 en fluttist ársgömul með foreldrum og systkinum að Belgsholti í Melasveit og þar ólst ég upp í í stórum systkinahópi, en ég er 3ðja í röðinni af 8 systkinum. Foreldrar mínir eru, Magnús Ólafsson bóndi, nú látinn og Anna Ingibjörg Þorvarðardóttir húsfreyja. Ég á eina dóttur, Önnu Elínu, sem er gift Sigursteini Gíslasyni og eiga þau 3 börn¸Magnús Svein 10 ára, Unni Elínu 5 ára og Teit Leó 3ja ára.

Skólaganga mín var farskóli, sem var á heimili okkar í tvær vikur í senn á tveggja vikna fresti. Að loknum barnaskóla tók Héraðsskóli við og úskrifaðist ég með gagnfræðapróf frá Reykholti í Borgarfirði vorið 1966.

 Ekki varð af frekari skólagöngu heldur farið strax út á vinnumarkaðinn og hef ég unnið sem verkakona alla mína tíð.  Fyrst í mötuneytum, síðan í fiski, sem hefur verði mitt aðalstarf alla tíð síðan, fyrir utan 5 ár er ég var starfsmaður verkalýðsfélags. Ég hef unnið hjá HB Granda hf sl. 5 ár og síðustu  2 árin hef ég einnig unnið aðra hvora helgi á Dvalar- og Hjúkrunarheimilinu Grund á nnætuvöktum. Ég hóf snemma afskipti af félagsmálum og tók virkan þátt  í verkalýðsbaráttunni, bæði  í stjórnum félaga og heildarsamtakanna. Ég kom að gerð fjölda kjarasamninga og mótun mennta- og fræðslumál a ófaglærðra. Ég er fulltrúi fiskverkafólks í Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar. Ég sit í trúnaðarmannaráði Eflingar - Stéttarfélags og var nú á dögunum kosin 1. varaformaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokkins.  Í gegnum  árin hef ég sótt fjölda námskeiða á á vegum launþegasamtakana sem hafa nýst mér vel í pólitísku starfi.

Ég bjó á  Akranesi í 25 ár eða þar til ég komi suður 2004. Ég hef alla tíð verið gallharður Sjálfstæðismaður og verið virk í pólitíkinni í rúm 30 ár. Fyrstu afskiptin voru nefndarstarf fyrir flokkinn í bæjarmálunum á Skaganum. Ég var varaþingmaður Vesturlandskjördæmis ´91 - ´94 og sat í Bæjarstjórn Akraness frá ´94 - ´02. Ég hef setið í miðstjórn flokkins síðustu 12 til 15 ár og allan tímann verið virk í málefnanefndum flokksins. Ég hef í gegnum árin setið mörgum verkefnanefndum á vettvangi sjávarútvegs,  og setið í stjórn Fiskifélags Íslands sl. 15 ár. Ég varð fljótt virk í flokksstarfinu hér í Reykjavík þegar ég kom suður, gekk strax í Málfundafélagið Óðinn og hef setið þar í stjórn síðan. Ég var í 15. sæti á lista flokksins til borgarstjórnar í síðustu kosningum.  Ég hef á kjörtímabilinu setið í Velferðarráði, bæði sem aðal- og/eða varamaður, aðalmaður í Heilbrigðisnefnd,  varamaður í Menntaráði og varamaður í Menningar- og ferðamálaráði.

Það kjörtímabil, sem nú er senn á enda, fer á spjöld sögunnar sem tímabil hinna mörgu meirihluta. Það hefur verið öllum flokkum erfitt, ekkert síður Sjálfstæðisflokknum sem loks vann Borgina  aftur , í samstarfi við Framsókn, eftir 12 ára setu í minnihluta. Ekki ætla ég að dvelja við það allt saman, en vil þó undirstrika þau breyttu vinnubrögð, sem urðu þegar sá meirihluti sem nú situr tók við. Undir styrkri stjórn Hönnu Birnu borgarstjóra hafa verið tekin upp ný vinnubrögð með samstarfi allra flokka. Aðhald og sparnaður án þess að skerða þjónustuna er það sem máli skiptir og að hækka ekki skatta og gjöld. Þetta hefur tekist og eiga starfsmenn borgarinnar stóran þátt í hversu vel hefur tekist til og ber að þakka það.

Eftir  áralangt starf innan verkalýðshreyfingarinnar  og  stjórnmálanna hef ég aflað mér viðtækrar þekkingar og reynslu sem ég tel mikilvægt innlegg inn í  borgarmálin. Það er því af  þó nokkru stolti og metnaði sem ég tel mig eiga fullt erindi í Borgarstjórn og geta látið gott af mér leiða. Á þeim tímum sem við lifum nú, er ekki tilefni til mikilla loforða um að gera þetta eða gera hitt. Mikilvægast er þó að draga  úr atvinnuleysinu og koma í veg fyrir langtíma atvinnuleysi einstaklinga. Að hafa vinnu til að sjá sér og sínum farborða er grundvallarréttur hvers manns. Samstarf við atvinnulífið er það sem leggja þarf áherslu á  til að fjölga  störfum í Reykjavík.  Einnig þarf að auka virkni þeirra sem eru án vinnu og gera það í samstarfi við Stéttarfélögin sem búa yfir mikilli þekkingu og úrræðum á þessu sviði. Það er eitt af brýnustu verkefnunum. Halda þarf áfram á sömu braut hagsýni og aðhalds,  til að verja grunnþjónustuna við borgarbúa, sérstaklega börnin. Hækkun skatta kemur ekki til greina, nógar álögur hafa verið lagðar á borgarbúa og landsmenn alla af hendi  núverandi Ríkisstjórnar. Það er hægt að gera fjölmargt til að auðga mannlífið og bæta lífsgæðin hér í höfuðborginni án þess að setja fjármálin í uppnám. Fjölgun ferðamanna hrópar á bætta  aðstöðu fyrir samgöngufyrirtækin. Aðstaðan sem farþegum og fyrirtækjum er boðið uppá á Reykjavíkurflugvelli er til skammar og hefur  verið í mörg ár. Það er forgangsmál að bæta þar úr.

Ágæti kjósandi. Sjálfstæðisflokkurinn gengur nú í gegnum mikla sjálfskoðun og sjálfsgagnrýni. Í velmegum undanfarinna ára hafa gömlu glidi flokksins setið á hakanum og grunngildin ekki verið í hávegum höfð. Hafin er vinna innan flokksins til að byggja upp innviðina og leggja áherslu á hvað sjálfstæðisstefnan stendur fyrir. Eitt af grunngildunum er að hann er flokkur allra stétta þar sem einstaklingurinn fær að njóta sín og allir hafi sömu tækifærin. Menn fari að leikreglun sem settar eru og taki ábyrgð á eigin gerðum. Við verndum  þá sem minna mega sín og tryggjum öryggisnetið. 

Þegar þú kjósandi góður, raðar niður á listann þarftu að hafa í huga að það sem máli skiptir er kjördagurinn 29. maí. nk. Hvernig er listinn sigurstranglegastur? Hvaða samsetning er líklegust til að skila flokknum hreinum meirihluta í vor, því að því hljótum við að stefna. Ég tel að listinn þurfi að vedra skipaður jafnt konum og körlum og endurspegla grunngildi sjálfstæðisstefnunnar,  vera staðfesting þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé og verði flokkur allra stétta. Því fer ég fram á að þú setjir mig í 5. sæti listans í prófkjörinu þann 23. Jan. nk. Stöndum saman að því að vinna borgina með hreinum meirihluta og höldum áfram okkar góða starfi undir stjórn okkar frábæra borgarstjóra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Gerum góða borg betri og landsmenn alla stolta af sinni fögru höfuðborg.

 

 

 


Þá er loksins komið að því!

  Það hefur lengi verið á stefnuskránni hjá mér að koma mér upp bloggsíðu og taka á þannig þátt í   umræðunni í bloggheimum

Það hefur aldrei verið mín sterkasta hlið að tjá mig í skrifuðu máli, meira „með kjaftinn út á öxl“týpan.  En ég er þessa dagana í þeirri stöðu að ekki verður undan því komist að gefa fólki smá mynd af því   fyrir hvað ég stend og kynna því skoðanir mínar á hinum ýmsu málum. Ég á auðvitað við prófkjör okkar Sjálfstæðismanna hér í Reykjavík sem fer fram þann 23. Janúar nk . en ég sækist þar eftir 5. sætinu.

Ég verð því að henda mér útí  djúpu laugina og vona að æfingin skapi meistarann.    Það sem ég hef hugsað mér að gera hér að að segja skoðun mína á hinum ýmsu málum sem eru í umræðunni hverju sinni  og er þar allt undir. Ég hef sterkar skoðanir á mörgum málaflokkum og mun ekki liggja á mínum skoðunum.

Borgarmálin eru mér auðvitað efst í huga þessa dagana, að sjálfsögðu og verða þau væntanlega fyrirferðarmikil.

Sem fiskverkakona er ég mikil áhugamanneskja um íslenskan sjávarútveg og  hagsmuni fiskverkafólks. Ég vinn líka við ummönnun aldraðra og eru þau málefni mér afar hugleikinn. 

Verandi bóndadóttir ofan úr Borgarfirði stendur íslenskur landbúnaður mér afar nærri. 

Ég er móðir og amma og því er hagur fjölskyldunnar og barnanna eitthvað sem ég hef skoðanir á.

Ég hef áhuga á ýmsum málun sem koma hvorki  vinnu eða pólitík við. Ég prjóna af miklum móð og hef gaman af hannyrðum almennt.

Knattspyrna er ein göfugasta íþrótt sem til er. Flottasta og besta lið í heimi er auðvitað Manchester United. Ég er mikil áhugamanneskja um íþróttir almennt. Ég á mér uppáhaldslið í flestum hópíþróttum, þeim fáið þið vafalaust að kynnast síðar.

Ég eignaðist húsbíl fyrir tæpum 2 árum síðan og er það alger draumur að ferðast um okkar fagra land á þann hátt.  

Þar sem ég er ný á þessu sviði og frekar upptekin næstu 2 vikurnar þá hef ég lokað fyrir athugasemdir á síðunni, til að byrja með í það að minnsta kosti. Ég geri ráð fyrir að þegar maður slípast til þá opni maður á að þig getið mælt með eða á móti.

Þar sem ég er að koma af næturvakt og þarf að hvíla mig þá læt ég þetta duga að sinni.

Sjáumst fljótt aftur.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband